Ekki slegið af í Vestmannaeyjum

Hvergi slegið af framkvæmdum í Vestmannaeyjum þrátt fyrir kreppu.
Hvergi slegið af framkvæmdum í Vestmannaeyjum þrátt fyrir kreppu. mbl.is/Rax

Í frétt í Morgunblaðinu í dag er fjallað um þá ákvörðun sveitarfélaga að fresta verklegum framkvæmdum og haft eftir Ólafi Þór Snorrasyni framkvæmdastjóra umhverfis og framkvæmdasviðs Vestmannaeyja að ákveðið hafi verið að bíða með útboð á knattspyrnuhúsi. Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum vil leiðrétta þetta.

„Hér er um misskilning að ræða enda hefur framkvæmdin þegar verið boðin út og tilboð verða opnuð 11. nóvember.  Þá hefur Vestmannaeyjabær einnig tekið ákvörðun um að hefja á næstu dögum framkvæmdir við nýjan sundlaugargarð með rennibrautum, vatnsgufu, heitum pottum og fleira," segir Elliði.

Frestum ekki framkvæmdum

„Við frestum ekki framkvæmdum nema tilboð og kostnaðaráætlanir gefi tilefni til slíks.  Það þarf ekki flókna hagfræði til að sjá að hlutverk hins opinbera er frekar að framkvæma á krepputímum en á þenslutímum svo fremi sem bolmagnið sé til staðar," sagði Elliði.

 „Hér í Vestmannaeyjum höfum við hjá bænum haldið að okkur höndum á meðan þenslan var hvað mest og einbeitt okkur að hagræðingu í rekstri.  Það skapar okkur nú aukna getu til að framkvæma þegar kreppir að og atvinnuleysi er yfirvofandi víða.  Við höfum þegar boðið út knattspyrnuhúsið og opnum tilboð 11. nóvember.  28 aðilar hafa sótt tilboðsgögn og vonandi getum við tekið nýtt hús í notkun árið 2009,"sagði Elliði jafnframt.

Sláum hvergi af

„Það eina sem getur breitt því er að tilboðin víki verulega frá áætlunum okkar.  Þá af sjálfsögðu gætum við þurft að endurskoða afstöðu okkar hvað tímasetningar varðar.  Fyrirfram sláum við hvergi af og bætum frekar í en hitt," sagði Elliði að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert