Flest bendir til þess að fýsilegasti kostur Íslendinga sé að leggja krónunni og sækja um aðild að myntbandalagi Evrópu hið fyrsta að mati sérfræðinga. Brýnt sé að koma á nothæfum gjaldeyrismarkaði sem fyrst en þegar til lengri tíma er litið telja flestir að taka þurfi upp nýjan gjaldmiðil í landinu.
Gylfi Zoëga, hagfræðiprófessor við HÍ, bendir á að hér séu staddir sérfræðingar IMF sem m.a. séu sérhæfðir í því að skipuleggja gjaldeyrismarkað í löndum þar sem hann hefur hrunið. „Þeir munu væntanlega leggja til að gjaldeyrisforðinn verði efldur með láni frá IMF og vextir jafnframt hækkaðir til skamms tíma í því skyni að hindra að forðinn fari úr landi. Um leið munu sérfræðingarnir vekja traust á landinu með því að leggja blessun sína yfir áætlun um endurreisn efnahagslífsins. Erlendir bankar fara þá vonandi að skipta við okkur á ný.“
Nafni hans og kollegi, Gylfi Magnússon, lektor í hagfræði við HÍ, segir endurreisn gjaldeyrismarkaðarins mikið forgangsmál og í því ferli leiki aðkoma IMF lykilhlutverk með fjárstuðningi og ráðgjöf. „Síðan þarf einfaldlega að leyfa genginu að fljóta á markaði og sjá hvað setur. Núna kemur mjög lítill gjaldeyrir inn í landið og ein ástæðan er sú að það eru gjaldeyrishöft. Þótt þau eigi bara að tempra útflæði gjaldeyris draga þau ósjálfrátt líka úr innflæði því ef gengið er fjarri raunhæfu markaðsgengi kemur það líka í veg fyrir innflæði gjaldeyris.“
Hann telur engan vafa leika á að hægt verði að koma á gjaldeyrismarkaði að nýju. „Hann verður þá með krónunni fyrst um sinn en svo hljótum við auðvitað að íhuga alvarlega að losa okkur við þann vandræðagjaldmiðil.“
Þeir eru sammála um að það þýði að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna því aðrar myntir séu ekki raunhæfur valkostur. „Það þarf seðlabanka á bak við gjaldeyrinn sem myndi samþykkja að veita okkur nauðsynlega þjónustu og það gera aðrir seðlabankar ekki,“ segir Gylfi Zoëga. „Ef við óskum t.d. eftir því að nota norsku krónuna þarf norski seðlabankinn að samþykkja að verja bankana okkar, lána þeim og þjónusta. Og af hverju skyldu þeir gera það?“