Finnur Sveinbjörnsson, nýráðinn forstjóri Nýja Kaupþings, er hæst launaði starfsmaður íslenska ríkisins og fyrirtækja í eigu þess, með um 1,95 milljónir króna í grunnlaun á mánuði.
Stjórnir Nýja Glitnis og Nýja Landsbankans hafa neitað að gefa upp laun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Nýja Glitnis, og Elínar Sigfúsdóttur, bankastjóra Nýja Landsbankans. Morgunblaðið óskaði eftir rökstuðningi við þá neitun í ljósi þess að mánaðarlaun eins af bankastjórum nýju ríkisbankanna þriggja hafa verið gerð opinber. Engin rök voru gefin upp fyrir neituninni önnur en þau, að stjórnum bankanna bæri ekki skylda til þess að gefa upp launin samkvæmt lögum. Þóra Margrét Hjaltested, stjórnarformaður Nýja Glitnis, og Þórhallur Arason, stjórnarformaður Nýja Landsbankans, staðfestu þessi viðhorf í samtölum við blaðamann.