Líst vel á aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Gylfi Arnbjörnsson, nýkjörinn forseti ASÍ, og Grétar Þorsteinsson, fyrrverandi forseti …
Gylfi Arnbjörnsson, nýkjörinn forseti ASÍ, og Grétar Þorsteinsson, fyrrverandi forseti ASÍ. Kristinn Ingvarsson

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir það sem fram hefur komið um aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við íslenska ríkið mikilvægt skref. Forsætisráðherra náði að kynna málið stuttlega fyrir forystusveit Alþýðusambandsins fyrir blaðamannafundinn í dag.

„Auðvitað er ekki mikið komið fram efnislega um hvað liggi þarna inni. Það er eðlilegt að stjórn gjaldeyrissjóðsins fái það til umfjöllunar. Þar er ákveðið ferli sem þarf að fara í gegnum, þó það sé verið að afgreiða þetta með miklu hraði hjá sjóðnum. Það ber að líta á það sem jákvætt skref af hálfu sjóðsins að hann taki svona snöggt á málum.“

Hann segir sér lítast vel á það sem hann hefur séð. Mikilvægt sé að styrkja krónuna og forða landsmönnum frá því að núverandi veiking hennar festi sig í sessi sem verðbólga.  „Ég vona að það taki sem allra skemmstan tíma að ganga frá formsatriðum í kringum þetta,“ segir Gylfi.

Hann kveðst treysta ríkisstjórninni til þess að skrifa ekki upp á meiri skuldir fyrir hönd íslenska ríkisins en alþjóðlegar skuldbindingar þess mæla fyrir um.

Þarf að verja velferðarkerfið og velferðarstigið

Mikilvægt sé að ekki sé farið í neinn harkalegan niðurskurð á næsta ári, heldur að skattkerfið og velferðarkerfið vinni með í því að draga úr byrðum fólks og hjálpa því að komast í gegnum þrengingar.

„Við getum ekki keyrt með mjög mikinn halla á ríkissjóði. Við höfum ekki efni á því. Verkalýðshreyfingin hefur að sjálfsögðu mótað sér ákveðna sýn um það með hvaða hætti þarf að taka á því. Þarna þurfum við að forgangsraða, verja velferðarkerfið og velferðarstigið en á sama tíma taka á þessum halla og gefa okkur einhver ráð til þess. Ég hygg að það sé skilningur á því hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að það sé farið í þetta á lengri tíma en einu ári og það held ég að sé niðurstaðan. Við þurfum örugglega fjögur til fimm ár í þetta viðfangsefni,“ segir Gylfi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert