Mjög erfiðir tímar framundan

Fulltrúar IMF á blaðamannafundi í húsnæði ríkissáttasemjara í dag.
Fulltrúar IMF á blaðamannafundi í húsnæði ríkissáttasemjara í dag. mbl.is/Kristinn

Paul Thomsen, formaður sendi­nefnd­ar Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins, sagði á blaðamanna­fundi í dag, að ljóst væri að mjög erfiðir tím­ar væru framund­an á Íslandi. Spár gerðu ráð fyr­ir að verg lands­fram­leiðsla kunni að drag­ast sam­an um allt að 10% en sú spá væri háð mik­illi óvissu.

Thomsen sagði, að hætt­an væri sú, að þegar gjald­eyr­is­markaðir verða opnaðir á ný verði gjald­eyr­is­flótti og það muni leiða til enn frek­ari lækk­un­ar krón­unn­ar. Slíkt gæti haft al­var­leg­ar af­leiðing­ar fyr­ir skuld­sett heim­ili og fyr­ir­tæki. Því væri meg­in­verk­efnið nú er að koma á stöðug­leika í gjald­eyr­is­mál­um.

Til lengri tíma væri verk­efnið, að koma á jafn­vægi í rík­is­bú­skapn­um. Mik­il um­skipti yrðu nú á stöðu ís­lenska rík­is­ins, sem hefði verið lítið skuld­sett en yrði nú mjög skuldugt. Ekki lægi fyr­ir hverj­ar skuld­irn­ar yrðu í raun fyrr en eft­ir nokk­ur ár þegar ljóst yrði hver verðmæti ís­lensku bank­anna í út­lönd­um væri. 

Thomsen sagði að gert væri ráð fyr­ir, að draga muni úr verðbólgu á næsta ári og hún verði orðin um 4,5% í lok næsta árs.

Hann sagði að áætlað væri að Ísland þyrfti á 6 millj­arða dala fjár­mögn­un að halda á næstu tveim­ur árum. Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn muni leggja fram 2 millj­arða dala en lík­legt væri að Norður­landaþjóðirn­ar myndu taka með já­kvæðum hætti þátt í því verk­efni.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert