Óska formlega eftir aðstoð IMF

Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kynna ákvörðunina um …
Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kynna ákvörðunina um að óska eftir formlegum viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. mbl.is/Golli

Ríkisstjórnin hefur formlega óskað eftir samstarfi við Alþjóða­gjaldeyris­sjóðinn um að koma á efnahagslegum stöðugleika á Íslandi. Viðræður á milli fulltrúa Íslands og sjóðsins um fyrirkomulag samstarfsins hafa staðið yfir um nokkurt skeið.


Samstarf Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins felur í sér lánveitingu frá sjóðnum að jafnvirði 2 milljarðar bandaríkjadala og koma 830 milljónir af þeirri fjárhæð til greiðslu, þegar við staðfestingu stjórnar sjóðsins. Gert er ráð fyrir að lánið verði endurgreitt á árunum 2012 til 2014. Jafnframt segjast íslensk stjórnvöld vera þess fullviss um að samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn muni skapa forsendur fyrir frekari lánafyrirgreiðslu frá öðrum löndum.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir, að unnin hafi verið ítarleg efna­hagsáætlun í samráði við fulltrúa sjóðsins með það að markmiði að koma á efna­hags­legum stöðugleika á nýju. Fyrir liggi samkomulag á milli íslenskra stjórnvalda og sendi­nefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem verði borið undir stjórn sjóðsins til endanlegrar af­greiðslu eins fljótt og auðið er.
„Íslenska ríkisstjórnin telur það vera brýnasta verkefni líðandi stundar að„ koma á efna­hags­legum stöðugleika hér á landi og ná tökum á gengi krónunnar. Sviptingar síðustu vikna hafa gert það að verkum að skilvirkni fjármálamarkaða hefur tímabundið skaddast þótt staða ríkis­sjóðs sé sterk. Af þeim sökum er mikilvægt fyrir íslenska ríkið að hafa til reiðu stóran sjóð í erlendri mynt til þess að mynda kjölfestu og trúverðugleika fyrir gengisstefnu stjórnvalda og bregðast við óhóflegum sveiflum á gengi krónunnar.

Meginmarkmið efnahagsáætlunar ríkisstjórnarinnar eru:
1.    Að endurvekja traust á íslenskum efnahag og ná stöðugu gengi krónunnar með mark­viss­um og öflugum aðgerðum.
2.    Að undirbúa markvissar aðgerðir til að styrkja stöðu ríkissjóðs.
3.    Að endurreisa íslenskt bankakerfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka