„Ég geri þann fyririrvara við málið fyrir mína parta að skilyrði um hækkun vaxta eru ekki aðgengileg í núverandi stöðu. Ég held að það hjálpi hvorki okkur né atvinnulífinu eins og nú er háttað,“ segir Guðjón Arnar kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins um aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Guðjón segi rað engan veginn sé hægt að láta sér lítast vel á þau drög sem fyrir liggja en þjóðin hafi verið komin í afar erfiða stöðu.
„Við erum kannski að taka þann eina kost sem við áttum. Við getum ekki hlaupið hvert sem er. Þetta er neyðarúrræði en ef það eiga að fylgja einhver skilyrði frá IMF um samninga við Breta þá er það ekki viðunandi að mínu viti. Það á alls ekki að tengjast þessu.“
Guðjón Arnar segir tölurnar geigvænlegar. Ef lántaka þjóðarinnar verði á endanum 600 milljarðar króna á 7% vöxtum, geri það litla 42 milljarða króna í vaxtagjöld ári. Og Guðjón segist ekki sjá að menn hafi séð til lands með það hvernig eigi að greiða slík lán til baka.
„Sjálfsagt byrjum við með einhverjum ægilegum halla á fjárlögum næsta árs en það verður ekki hjá því komist að hækka skatta. Það er ekki þar með sagt að við tökum skattahækkanir út á fyrsta árinu meðan stærsti skellurinn ríður yfir, en það verður ekki undan því vikist að hækka skatta hér. En við verðum líka að nýta allar leiðir til að auka tekjur þjóðarbúsins. Ef sjávarútvegsráðherra ætlar í þessari stöðu, enn að halda sig við trúarbrögð fiskifræðinga hvað þorskinn varðar þá er það aðför að þjóðinni. Við verðum að taka alla sénsa til að ná í tekjur, það dugar ekkert minna. Við getum sagt eins og Lúðvík Jósepsson, fyrrum sjávarútvegsráðherra sagði fyri rmörgum áratugum; við ákveðum að láta fólkið lifa og drepa þorskinn.“