Skorar á útflytjendur

Stjórn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins fjallar um tveggja milljarða  lánveitingu  til Íslands eftir tíu daga fari viðræður að óskum.

Gert er ráð fyrir að lánið verði greitt upp á árunum 2012 til 2015 en ekki er hægt að upplýsa um skilmála lánsins fyrr en stjórn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins hefur tekið afstöðu til þeirra.

Eftir það má gera ráð fyrir að um áttahundruð milljónir dala verði strax greiddar úr sjóðnum.

Formenn stjórnarflokkanna vonast þó til að yfirlýsing um formlegar viðræður við sjóðinn greiði fyrir því að gjaldeyrismálin komist í lag. Forsætisráðherra skorar á útflytjendur að koma með gjaldeyri til landsins og almenning að kaupa íslenskar vörur

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir H. Haarde segja Alþjóða gjaldeyrissjóðinn vilja að deilumálið við Breta um Icesave skuldirnar sé í eðlilegum farvegi  eins og það er kallað áður en lánið verði afgreitt.

Spurt var hvort það þyrfti að afskrifa stóran hluta af skuldum bankanna og Geir svaraði því til að öll atburðarásin hingað til hefði stefnt að því að þjóðin þyrfti ekki að greiða skuldir bankanna.  Ekki kæmi til greina að taka stórt erlent lán til að greiða skuldir bankanna. Hann var því spurður hvort hann útilokaði þá lán frá Bretum til að gera upp Icesave reikninganna.  Hann sagði að málið snerist um hvort ríkið bæri ábyrgð vegna þessara reikninga samkvæmt Evróputilskipun. Um það væri lögfræðilegum ágreiningur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert