Togari slitnaði frá bryggju

togarinn Lómur II slitnaði frá bryggju í Kópavogi í nótt.
togarinn Lómur II slitnaði frá bryggju í Kópavogi í nótt. mbl.is/Golli

Togarinn Lómur II slitnaði frá bryggju í Kópavogshöfn skömmu eftir miðnættið og rak í átt að smábátahöfninni í Kópavogi. Björgunarsveitamenn fóru um borð og reyndu að ræsa vélina en tókst ekki. Togarann sem er 1600 brúttólestir tók niðri og strandaði við smábátabryggjuna þegar tók að fjara út.

Þrír menn voru í togaranum en þeim var komið um borð í björgunarbát slysavarnarfélagsins skömmu eftir að Lómur slitnaði frá bryggju. Landhelgisgæslan var í viðbragðsstöðu með þyrlu ef bjarga þyrfti mönnum frá borði en til þess kom ekki.

Dráttarbáturinn Magni gerði tilraun til að komast til Kópavogs frá Reykjavík en varð frá að hverfa vegna veðurs.

Á tímabili óttuðust menn að Lómur II myndi reka upp í land en nú situr hann fastur og beðið er eftir flóðinu klukkan 15.

Að sögn varðstjóra lögreglu hallar skipið mikið.

Lómur II sem er skráður erlendis hefur legið við Kópavogsbryggju frá því í sumar.

Landhelgisgæslan til taks

Landhelgisgæslan var með varðskip úti á Faxaflóa en ekki þótti ráðlegt eða nauðsynlegt að setja það í þetta verkefni enda var ennþá hætta á snjóflóðum á Vestfjörðum og nauðsynlegt að hafa skipið tiltækt ef til þess kæmi.

Lögreglan á Ísafirði sagði að þrátt fyrir slæmt veður og rafmagnstruflanir þá hafi nóttin verið róleg. Vegurinn á milli Súðavíkur og Ísafjarðar var lokaður vegna veðurs á tímabili en að öðru leyti var ekki um nein útköll eða tjón að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert