Um 40 manns sóttu um tvær afleysingastöður í Hólabrekkuskóla nú í október. Skólastjórinn, Hólmfríður G. Guðjónsdóttir, segist aldrei hafa kynnst öðru eins.
„Umsóknunum rigndi inn. Ég auglýsti eina kennarastöðu og eina stöðu stuðningsfulltrúa í byrjun mánaðarins. Það sóttu um 20 manns um hvora stöðu, fólk með kennsluréttindi og alls konar framhaldsmenntun. Þetta var bæði fólk sem var búið að missa vinnu og fólk sem er að ljúka námi,“ greinir Hólmfríður frá.
Hún segir þetta mikil viðbrigði því erfitt hafi verið að manna grunnskólana undanfarin tvö ár.
Kristinn Breiðfjörð, formaður Skólastjórafélags Íslands, segir þá fáu skólastjóra sem hann hafi heyrt í segja sömu sögu.
Sjálfur kveðst Kristinn, sem er skólastjóri Foldaskóla í Grafarvogi, hafa verið að auglýsa eftir umsjónarkennara í 1. bekk frá því í vor.
„Ég var líklega kominn með eina umsókn áður en kreppan skall á en nú hafa komið inn 10 umsóknir á örstuttum tíma.“
Helmingur umsækjenda er með kennsluréttindi og hinn helmingurinn með annars konar menntun. Nánast allir umsækjendurnir eru með einhvers konar háskólamenntun, þar á meðal viðskiptamenntun. Þetta er bæði fólk sem hefur misst vinnu og er að ljúka viðskiptanámi á Bifröst. Ég hef aldrei kynnst öðru eins þau 30 ár sem ég hef verið í þessum bransa.“