Japönsk túnfiskveiðiskip hafa verið í Reykjavíkurhöfn undanfarna daga til að leita skjóls fyrir veðri og vindum og notað tækifærið til að taka olíu og vistir. Um 40 skip hafa verið á túnfiskveiðum suður af landhelginni að undanförnu.
„Veðrið hefur verið slæmt og þeir notuðu tækifærið og sóttu sér olíu og mat,“ segir Sigvaldi Hrafn Jósafatsson hjá Gáru ehf. skipamiðlun, sem er með umboð fyrir nokkur skipanna.
Sigvaldi segir mikla búbót fyrir Íslendinga að fá viðskipti við skipin, því hver heimsókn skili nokkrum milljónum króna í gjaldeyri.