Biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, sagði í setningarræðu sinni á Kirkjuþingi í dag að áfölllin í efnahagslífinu væru slæm en við værum vel undir þau búin.
„Þeir alvarlegu erfiðleikar sem íslensk þjóð gengur nú gegnum er umfram allt auðsældarkreppa en ekki örbirgðar. Íslendingar hafa aldrei verið auðugri og þjóðin aldrei búið við betri innviði og forsendur en nú til að takast á við og vinna sig út úr áföllum.
Sannarlega erum við vellauðug í samanburði við þau sem vart hafa til hnífs og skeiðar, og sem er hlutskipti milljóna barna víða um heim. Okkar er að gleyma þeim aldrei og rétta fram hjálparhönd líka og ekki síður þegar við finnum að okkur þrengt í lífskjörum.
Það væri til marks um auðugt hjarta og trúmennsku okkar við gjafara allra góðra hluta að leggja okkur fram um einmitt nú að styðja þau börn sem þurfa áfram á aðstoð okkar að halda."