Einhverjir hættir að selja fisk til Bretlands

Enn gengur útgerðarmönnum illa að fá greiðslur í gjaldeyri fyrir seldan fisk, að sögn Friðriks J. Arngrímssonar, framkvæmdastjóra LÍÚ. Þessi samskipti eru erfiðust við Bretland, en þangað hafa Íslendingar ævinlega selt mikið af ferskum og frosnum fiski. Einhverjir útgerðarmenn hafa, að minnsta kosti um sinn, hætt þessum útflutningi og setja fiskinn á aðra markaði eða í vinnslu.

„Eftir því sem tíminn líður hefur þetta meiri áhrif,“ segir Friðrik. „Upphafið að vandræðunum er tilskipun um frystingu eigna Landsbankans í Bretlandi. Við megum hins vegar alls ekki láta þessa erfiðleika hafa áhrif á þær viðræður sem standa yfir vegna óbilgjarnra krafna Breta á hendur okkur vegna Icesave.

Þessi staða þjónar ekki heldur hagsmunum Breta því þar í landi er fullt af fólki sem vinnur við vinnslu á fiskinum okkar. Viðskiptin þurfa að ganga sem greiðlegast og Bretar fara vonandi fljótlega að horfa á þetta með þeim augum,“ sagði Friðrik.

Hann benti á að þessi erfiða staða væri í raun atvinnulífið í hnotskurn, en sem stjórnarmaður í SA kemur Friðrik að málinu frá fleiri hliðum.

Spurður hvort hann hefði upplýsingar um að innflytjendur reyndu að kaupa gjaldeyri af útflytjendum sagðist hann ekki geta fullyrt um slíkt. „Ég hef heyrt af því að innflytjendur hafi viðrað slík viðskipti, en veit ekki hvort eða í hversu miklum mæli þetta á sér stað,“ sagði Friðrik.

 
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert