Einlægustu vinir Íslands í Manitoba

Atli Ásmundsson og Gary Doer
Atli Ásmundsson og Gary Doer

Atli Ásmundsson, aðalræðismaður Íslands í Winnipeg, og Gary Doer, forsætisráðherra Manitoba í Kanada, áttu í gær fund um stöðu mála á Íslandi. „Hann bað fyrir kveðjur til þjóðarinnar og ráðamanna og lýsti yfir stuðningi við okkur í þessari erfiðu baráttu,“ segir Atli.

Forsætisráherrann hefur sótt Ísland heim þrisvar sinnum og á marga vini á Íslandi. „Ég minnist Íslands í bænum mínum og þið megið vita af vináttu minni og annarra Manitoba-búa,“ hefur Atli eftir Doer. Hann bætir við að forsætisráðherrann sé sannfærður um að Ísland vinni sig út úr vandamálunum með dugnaði sínum og þrautseigju.

„Við erum djúpt snortin yfir samhug og stuðningi sem hvarvetna er að finna meðal fólks af íslenskum ættum hér vestra,“ segir Atli. „Allir vilja fá sem nákvæmastar fréttir af stöðunni og sumir eru með tárin í augunum yfir ástandinu. Fólkið hugsar heim og hefur áhyggjur af kunningjum og ættingjum og augljóst er að Ísland á hvergi einlægari vini en einmitt hér, en ég hef reynt að hitta og vera í sambandi við eins marga og ég kemst yfir.“

John Harvard, fylkisstjóri Manitoba, hafði einnig samband við Atla í gær, en hann og kona hans Leonore Berscheid eru bæði af íslenskum ættum. „Harvard var vel upplýstur um stöðuna enda fylgist hann mjög vel með flestu á Íslandi,“ segir Atli. „Hann bað fyrir kveðjur heim og bestu óskir til þings og þjóðar á þessum erfiðu tímum.“ Atli segir ennfremur að James Bezan, þingmaður á Kanadaþingi, hafi lýst yfir við sig mjög afdráttarlausum og miklum stuðningi við Ísland og Janis Guðrún Johnson öldungadeildarþingmaður hafi haft sig mjög í frammi og talað máli Íslands alls staðar það sem hún hafi komið því við. „Hún hefur verið óþreytandi í baráttunni fyrir íslenskum málstað,“ segir Atli. steinthor@mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert