Þriggja bíla árekstur varð rétt fyrir kl. 17 á Kjalarnesi. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins voru tveir fluttir á slysadeild.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu voru tildrög slyssins þau að ökumaður jeppa var að draga hjólhýsi á leið norður. Vegna hvassviðris fauk hjólhýsið á hliðina yfir á öfugan vegarhelming og í veg fyrir tvo bíla sem voru á leið í suðurátt. Ökumaður fyrri bifreiðarinnar náði að sveigja burt frá hjólhýsinu, en ökumaður seinni bifreiðarinnar náði ekki að sveigja frá og ók beint inn í hjólhýsið með þeim afleiðingum að það sprakk. Dragan þurfti bílana tvo sem ekið var í suðurátt af vettvangi.
Ökumaður bílsins sem fékk brak úr hjólhýsinu á sig og sonur hans voru fluttir á slysadeild. Hjá vakthafandi lækni fengust þær upplýsingar að sonurinn hefði sem betur fer ekkert slasast og ökumaðurinn aðeins hlotið lítilsháttar mar og rispur eftir framrúðuna sem hann fékk í fangið. Verða báðir útskrifaðir fljótlega.