Lesskilningur barna í 2. bekk grunnskóla Reykjavíkur hefur ekki mælst betri í mörg ár. Árangurinn var sá sami árið 2002. 67% grunnskólabarna skilja það sem þau lesa.
„Niðurstaðan er mjög góð en á síðustu árum hafa á bilinu 63-66% nemenda í 2. bekk skilið það sem þau lesa,“ segir Auður Árný Stefánsdóttir, skrifstofustjóri grunnskólaskrifstofu borgarinnar.
Diljá Kristjánsdóttir, Ólöf Helga Sigurðardóttir og Kristófer Darri Guðjónsson eru öll í 2. bekk í Engjaskóla í Grafarvogi. „Ég lærði að lesa í fyrsta bekk og gengur vel,“ segir Diljá sem les helst skólabækurnar. Undir það tekur Ólöf Helga og bætir við að hún kjósi ekki aðeins skólabækurnar. „Ég les feitar og mjóar og alls konar bækur,“ segir hún. Bekkjarbróðir þeirra, Kristófer, les helst ævintýrabækur. Ekkert þeirra les blöðin að staðaldri, enda vart á réttum aldri til þess. „En ég les þau stundum á hvolfi,“ segir Ólöf Helga.