Góðar viðtökur eru við hinum árlega Kjötsúpudegi á Skólavörðustígnum sem haldinn er í sjötta sinn í dag, fyrsta vetrardag „Hér er gríðargóð stemning og fólk er að spæna súpuna í sig,“ segir Jóhann Jónsson í Ostabúðinni og ein skipuleggjanda dagsins. Segir hann alls hafa verið útbúnir 550 lítrar af kjötsúpu þetta árið, sem verði borin fram meðan birgðir endast.
Aðspurður áætlar Jói að allt að helmingi fleiri hafi nú þegar lagt leið sína niður á Skólavörðustíg þetta árið samanborið við í fyrra og segir hann gesti skipta hundruðum og vera á öllum aldri.
„Veðrið smellpassar fyrir okkur, auk umræðunnar í þjóðfélaginu,“ segir Jói og vísar þar til krepputalsins að undanförnu. Tekur hann fram að gott sé að landinn noti tækifærið til þess að hittast og gleðjast saman með þessum hætti. Bendir hann á að fimm félagar úr Harmnikkufélaginu gangi um götuna og spili fyrir gesti, auk þess sem boðið verði upp á dans, listsýningar og prjónandi konur.
Kjötsúpa dagsins er í boði samtaka sauðfjárbænda og grænmetisræktenda og eru það Siggi Hall, Úlfar Eysteinsson og Jói í Ostabúðinni sem sjá um að matreiða. Að sögn Jóa eru í súpunni eingöngu notað íslenskt lambakjöt sem er náttúrulega hollt, ljúffengt og býr yfir öllum kostum gæðamatvöru.
Að sögn Jóa er nokkur samkeppni milli matreiðslumannanna um vinsælustu súpuna þetta árið. „Súpurnar þrjár eru mjög ólíkar og það er skemmtilegt að fólk getur labbað á milli og smakkað hinar mismunandi útgáfur.“
Líkt og síðustu ár er súpan borin fram fyrir utan Fangelsið á Skólavörðustíg 9, Handprjónasambandið á Skólavörðustíg 19 og á móti Hvítabandinu fyrir utan Eggert feldskera. Þá verður grænmetissúpa úr lífrænt ræktuðu grænmeti borin fram fyrir utan Yggdrasil á Skólavörðustíg 16. Að sögn Jóa verða súpurnar bornar fram meðan birgðir endast.