„Krónan hefur verið helsta vandamálið í íslensku efnahagslífi undanfarin ár og of hátt gengi hennar,“ segir Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Landsbankans í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins. Hann segir að íslensk stjórnvöld og Seðlabankinn geti ekki hlaupið frá ábyrgð sinni á stjórn peningamála undanfarin ár.
Allt of hátt vaxtastig, útgáfa jöklabréfa upp á mörg hundruð milljarða, gífurlegur vaxtamunur sem Íslendingar hafi greitt til útlendinga ár hvert, séu allt afleiðingar af peningastjórn Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar, sem Björgólfur kallar „óstjórn“.
„Í umferð var svo mikið af peningum, til þess að við gætum haldið áfram frjálsum viðskiptum við útlönd, að við fluttum inn vöru á röngu virði. Krónan var rangt skráð og alltof sterk og þess vegna rann kaupæði á þjóðina,“ segir Björgólfur.
„Það sem er núna að gerast, eru m.a. timburmennirnir vegna þessa háttalags. Þetta vissu stjórnvöld og Seðlabankinn auðvitað allan tímann og því gengur það ekkert upp hjá þeim í dag, að halda því fram að allt sem úrskeiðis hefur farið sé bönkunum að kenna. Það er auðvitað spurning hvort það var ekki m.a. vegna jöklabréfanna sem við gátum ekki lækkað vaxtastigið hér á landi, sem hefur um langt skeið verið að drepa íslenskt atvinnulíf og einstaklinga.“
Björgólfur ræðir í viðtalinu um málefni Landsbankans, eignastöðu sína, hvað hann telur að hafi verið gert rétt og hvað rangt og fjölmargt annað.
Sjá nánar Sunnudagsblað Morgunblaðsins.