Sauðargærutogarar fari út fyrir 12 mílur

Landssamband smábátaeigenda krefst þess að dragnótaveiðar verði færðar út fyrir 3 mílur frá ströndum landsins og að togveiðar verði umsvifalaust færðar út fyrir 12 mílur.

„Menn eru æfir yfir þessari þróun, sem hefur orðið með dragnótaveiðar við landið og þessa svokölluðu þriggja mílna togara sem eru náttúrlega stærðarinnar togarar,“ segir Arthur Bogason, sem var kjörinn formaður LS í 24. sinn á aðalfundi sambandsins í gær. Hann segir þróunina vera í hróplegu ósamræmi við það sem gerist á alþjóðavettvangi og umræðuna erlendis, þar sem rætt hafi verið um að banna togveiðar. „Menn vilja sjá þetta fært út úr flóum og fjörðum og að þessir sauðargærutogarar verði settir á sinn stað fyrir utan 12 mílur.“

Meiri atvinna með hærri línuívilnun

„Innheimta auðlindagjalds af sjávarútveginum við ríkjandi aðstæður er bókstaflega fáránleg,“ segir í ályktun fundarins. Aðalfundurinn beinir því líka til stjórnvalda að þau geri þegar í stað ráðstafanir um raunhæfa aðlögun lána að því rekstrarumhverfi sem framundan sé í smábátaútgerð. Frysting lána sé skref í áttina en aðeins skammtímalausn.

Arthur segir að smábátasjómenn hafi áhyggjur af gengisþróuninni. Lán hafi hækkað um allt að helming á stuttum tíma og margir sjái eignir sínar gufa upp auk þess sem atvinnuleysi fari vaxandi.

„Það er fátt þjóð óhollara en að hafa ekkert að gera,“ segir Arthur og vill að sjávarútvegsráðherra hækki línuívilnun verulega, setji hana á alla krókabáta, og skapi þannig fjöldann allan af störfum. Íslendingar hafi ekki viljað vinna í sjávarútvegi í nokkurn tíma en þeir hafni ekki störfunum þegar ekki verði annað að hafa. Með þessari breytingu skapist mikil vinna og mikil verðmæti enda fiskurinn góður. „Við teljum það mjög snjallt ráð í þessu ástandi, sem er að fara í hönd, að horfa í þessa átt,“ segir hann og leggur áherslu á að þetta séu umhverfisvænar veiðar. „Smábátar eyða mun minni olíu en stærri skip miðað við veitt magn úr sjó,“ segir formaðurinn.

Vilja aukinn kvóta strax

Í ÁLYKTUN aðalfundar LS kemur m.a. fram að smábátaútgerðin standi í fullkominni óvissu um framtíðina, líkt og sjávarútvegurinn í heild og flestar atvinnugreinar í landinu, og krafist er verulegrar aukningar á þorskkvóta nú þegar.

Fram kemur að vísindamenn Hafrannsóknastofnunarinnar harðneiti að taka minnsta mark á þeirri eindregnu skoðun veiðimanna, hringinn í kringum landið, að ástand þorskstofnsins gefi ekkert tilefni til að skera veiðiheimildir niður fyrir öll söguleg lágmörk.

„Hafrannsóknastofnunin skuldar þjóðinni skýringar á því hvaða vitneskju hún bjó yfir varðandi íslenska þorskstofna, sem Alþjóðahafrannsóknaráðinu var ókunnugt um.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert