Handtök skipverjanna á dragnótabátnum Aðalbjörgu RE-5 voru fumlaus og hröð í blíðskaparveðri á Faxaflóa í liðinni viku. Þessu fengu fréttamaður og tökumaður mbl.is að kynnast þegar þeir slógust í för með skipverjunum í 14 tíma veiðiferð. Þá komust þeir jafnframt að því að sjóveikin er ekkert grín.
Fimm eru í áhöfn skipsins, sem eru undir styrkri stjórn skipstjórans Sigtryggs Albertssonar. Stemningin í hópnum var góð enda hafa þeir félagar unnið saman um árabil og tóku þeir vel á móti fréttamönnum mbl.
Aðalbjörg veiðir á dragnót, sem einnig kallast snurvoð, og var voðinni kastað átta sinnum á um 20 faðma dýpi yfir daginn. Meirihluti aflans er koli, eða um 80%. Eitthvað slæddist þó af öðrum tegundum s.s. ýsu og þorski með í voðina.
Kl. 19 var aflanum - alls fimm tonnum - landað í Reykjavíkurhöfn. Að sögn skipverja hefur aflinn oft verið meiri, en þeir benda á að haustið sé ávallt erfiður tími. September hafi hins vegar verið góður.
Nánar er greint frá ferðinni í máli og myndum í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.