Eru nú fyrst að átta sig á alvarleika málsins

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Frikki

„Mér finnst okkar norrænu kollegar vera fyrst að átta sig núna hvað þetta er alvarleg aðstaða. Hvað þetta geti haft mikið í för með sér fyrir íslenska þjóð. Og mikilvægi þess að finna heildstæða lausn á þessu máli,“ segir Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sem í dag ávarpaði ráðstefnu þar sem fjallað var um norrænu víddina í Evrópusamstarfinu.

Aðspurður segist Árni Páll hafa fundið fyrir stuðningi í garð Íslendinga. „Þetta er ekki eins og þetta sé eitthvað séríslenskt vandamál,“ segir Árni Páll, en bætir við að vegna veiks gjaldmiðils og stærðar bankanna hafi Íslendingar farið verr út úr kreppunni en aðrar þjóðir.

Árni Páll ræddi stöðu íslands og samstarf Norðurlandaþjóða á ráðstefnunni, sem er haldin í tengslum við Norðurlandaráðsþingið sem fram fer í Finnlandi. Hann ræddi jafnframt aðgerðir breskra stjórnvalda gagnvart íslensku bönkunum.

„Ég notaði hér tækifærið og vísaði til þess að þetta væri samstarf sem ætti að stuðla að efnahagssamskiptum og góðum efnahagstengslum. Þá hlyti maður að ræða það sem virkilega brynni á,“ sagði Árni Páll í samtali við mbl.is og vísaði til fjármálakreppunnar.

„Ég var ekkert að draga úr því að við bærum ábyrgð á okkar skuldbindingum, en við værum að fást við afleiðingar þess að íslenskir bankar hefðu nýtt sér það frelsi sem þeir hefðu, samkvæmt þeim reglum sem við hefðum öll samið um. Þær afleiðingar væru hins vegar mjög erfiðar fyrir íslenska þjóð. Þá væri mjög mikilvægt að eiga vini, segir Árni Páll og bætir við að það hefði verið hrósvert hvernig Norðurlöndin hefðu brugðist við.

Hann segist hafa nefnt það sérstaklega í ræðu sinni hvernig norrænu fjármálaeftirlitin hefðu tekið yfir eignir bankana, reynt að reka þær af viti og hjálpa til við sölu eigna. Koma þannig í veg fyrir meira tjón. 

Bretar gengu fram af offorsi

Árni Páll segir jafnframt að hann hafi bent á það hvernig Bretar hefðu gengið fram af miklu offorsi gagnvart Íslendingum, fryst eigur bankanna og sett Ísland hryðjuverkalista. Þannig hafi Bretar aukið enn á vandann,  stuðlað að frekari eignarýrnun og þar með skaðað almennt evrópska kröfuhafa.

 Hann segist hafa komið því á framfæri að íslensk stjórnvöld hefði boðist til þess að fela þennan ágreining Evrópusambandsdómstólnum til úrlausnar. Því hafi hins vegar verið hafnað. „Við hefðum hingað til viljað trúað því að sá tími að stór ríki í Evrópu misbeittu stærð sinni og aðstöðu til að kúga minni nágrannaríki, við hefðum viljað trúað því að sá tími væri liðinn,“ segir Árni Páll.

Diana Wallis, varaforseti Evrópuþingsins, var viðstödd ráðstefnuna og að sögn Árna Páls styður hún ekki aðgerðir bresku ríkisstjórnarinnar.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert