Fimmtíu þingmenn af 63 greiddu atkvæði með lögum um sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði hinn 6. október sl. Lögum sem í daglegu tali hafa verið nefnd neyðarlög. Í kjölfar greiðsluerfiðleika þriggja stærstu bankanna var enginn annar kostur í stöðunni að mati löggjafans. Um er að ræða róttækustu aðgerð í efnahagsmálum sem gripið hefur verið til í sögu þjóðarinnar.
Þótt meirihluti Alþingis hafi samþykkt lögin og þau þannig fengið lýðræðislega afgreiðslu, má færa rök fyrir því að þau gangi í berhögg við ýmsar meginreglur, sem gilt hafa í lýðræðisþjóðfélaginu Íslandi. Hér má nefna jafnræði, því innstæðueigendum er hyglað umfram aðra kröfuhafa bankanna, eignarrétt því eignaupptaka átti sér stað og innstæðum var fengin aukin rétthæð með afturvirkum hætti. Hér má einnig nefna málskots- og andmælarétt því stjórnsýslulögin gilda ekki um ákvarðanir skilanefnda bankanna og Fjármálaeftirlitsins.
Færa má rök fyrir því að ríkið beiti eignarnámi í skjóli laganna, með því að taka yfir eignir bankanna og færa þá yfir í nýja. Hins vegar er það svo að lagaheimild, almenningsþörf og fullt verð þarf að koma til svo eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar sé uppfyllt. Það má hins vegar ekki gleyma því að stjórnir bankanna óskuðu sjálfar eftir þessari meðferð eftir setningu laganna. Svo er spurning um rétt smærri hluthafa, sem áttu ekki í fulltrúa í stjórn, ekkert liggur fyrir um að samþykki þeirra hafi legið fyrir.
Ef við gefum okkur að almenningsþörf hafi verið fyrir hendi og við höfum lagaheimild, þá er álitamál hvort eigendur bankanna fái „fullt verð“ fyrir þau verðmæti sem tekin voru eignarnámi. Og við hvaða verð á að miða? Sumir hafa sagt að bankarnir hafi hrunið og verðmæti þeirra eftir því. Um þessar mundir eru skilanefndirnar að meta verðmæti bankanna. Þær hafa heimildir til þess að selja eignir bankanna, búta þær niður og meta eignir umfram skuldir. Verðmæti liggur því ekki fyrir.
Þeir lögmenn sem rætt var við voru sammála um að hér reyndi á meginreglur um neyðarrétt, álitaefni tengd afturvirkni laga og eignarréttarvernd. Neyð víki lögum og íslenska ríkið muni halda sér við það sjónarmið í þeim málaferlum sem koma í kjölfarið.
„Það verða riftunarmál hægri, vinstri og það verða skaðabótamál frá erlendum kröfuhöfum og það verða skaðabótamál frá hluthöfum,“ segir lögmaður sem er sérfræðingur í félaga- og kauphallarrétti. Hugsanlega þarf að athuga vel réttarstöðu þeirra sem áttu viðskipti með hlutabréf í Glitni eftir að ríkið ákvað að kaupa 75% hlut í bankanum.