Kynna stöðu sjóðsins

Almenni lífeyrissjóðurinn boðar til fundar nk. þriðjudag kl. 20 á Nordica hóteli til þess að kynna rekstur og afkomu sjóðsins. Samkvæmt upplýsingum frá Gunnari Baldvinssyni, framkvæmdastjóra Almenna lífeyrissjóðsins, er hér um venjubundinn haustfund að ræða sem skipulagður hafði verið með löngum fyrirvara.

„Þessi dagur er löngu frátekinn og átti að vera fundur um nýja þjónustu sem við kynntum á árinu sem heitir Lykillinn að Almenna lífeyrisjóðnum, en í ljósi þeirra hræringa sem hafa verið þá var því breytt og ákveðið að fjalla eingöngu um stöðu sjóðsins í kjölfar þessa umróts á fjármálamarkaði,“  segir Gunnar.

Spurður hvernig staða sjóðsins sé núna segir Gunnar unnið að því að meta hana. Spurður hvort slík yfirsýn muni nást fyrir fundinn svarar Gunnar því til að vonir manna standi til þess. „Við erum að vonast til þess að geta veitt einhverjar upplýsingar. Það er alveg ljóst að þessi sjóðir, eins og líklega flestir aðrir, hefur orðið fyrir tjóni,“ segir Gunnar og tekur fram að nú sé unnið að því að meta hversu mikið það tjón sé.

Gunnar beinir því til þeirra sjóðsfélaga sem hyggjast mæta á haustfund sjóðsins þetta árið að skrá þátttöku sína á heimasíðu sjóðsins (www.almenni.is) til þess að skipuleggjendur geti gert viðeigandi ráðstafanir fari mæting fram úr 500 manns, en það er það sem fundarsalurinn rúmar. Tekur hann fram að engum þeirra sem mæti verði vísað frá. Spurður um fjölda sjóðsfélaga segir hann þá telja 34 þúsund, en 20 þúsund manns hafa greitt í sjóðinn á þessu ári.

Aðspurður segir Gunnar fjölda sjóðsfélaga hafa haft samband við starfsmenn sjóðsins til að fá upplýsingar um stöðu sjóðsins og stöðu sinna mála. Spurður hvort margir hafi hætt tímabundið að greiða séreignalífeyrissparnað sinn til sjóðsins svarar Gunnar því neitandi. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka