Norðurlöndin sameinist í aðstoð við Ísland

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, þingaði í dag með Kristinu Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs og ráðgjafa hennar um mögulega aðstoð við Íslendinga. Á fundinum kom fram skilningur Norðmanna og vilji þeirra til að aðstoða Íslendinga fjárhagslega. Rædd var sú hugmynd að Norðurlöndin taki virkan þátt í fjárhagsaðstoð með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Fyrr í dag hitti Steingrímur J. Íslendinga búsetta í Osló og ræddi við þá um stöðu efnahagsmála á Íslandi. Sambærilegur fundur verður í kvöld í Jónshúsi í Kaupmannahöfn með Íslendingum á Kaupmannahafnarsvæðinu.

Steingrímur J. er á leið á Norðurlandaráðsþing í Helsinki og mun hann á þriðjudag taka þátt í umræðum forystumanna í Norrænum stjórnmálum á Norðurlandaráðsþinginu í Helsinki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert