Gjóður eða Pandion haliaetus, sem er stór evrópskur og n-amerískur ránfugl, gerði sig heimakominn um borð í Arnari HU1 í síðasta túr þar sem skipið var að veiðum á Melsekk vestur af landinu. Settist hann á skipið og var handsamaður þar enda aðframkominn af þreytu.
Hresstist við að fá fisk að éta
Gjóðurinn eða fiskiörninn, eins og hann er líka kallaður, hresstist fljótlega við að fá fisk að éta hjá áhöfninni enda lifir hann nær eingöngu á fiski sem hann veiðir sér til matar. Hann hefur þann háttinn á að hann svífur yfir vatnsyfirborði og steypir sér síðan niður ef hann sér fisk og grípur hann með sterkum klónum. Gjóðurinn er allstór fugl, 50-60 cm á lengd með vænghaf allt að 170 cm. Hann hefur flugbeittan, boginn gogg sem hann notar til að rífa í sig bráð sína. Á fótunum hefur hann fjórar stóra klær þar sem tvær snúa fram og tvær aftur. Fiskar sem lenda í klónum á honum sleppa ekki því hann lætur ekki laust það sem hann hefur einu sinni náð í.
Fljótlega eftir að Arnar kom í land með fuglinn var honum sleppt að ráði Ævars Petersen fuglafræðings sem telur ekki ólíklegt að hér sé um sama fugla að ræða og sást í Hafnarfirði 22. september og greint var frá í Morgunblaðinu. Gjóðurinn varð frelsinu feginn og tók strax flugið en virtist nokkuð stirður fyrstu vængjatökin enda búinn að vera í búri um borð í Arnari í tvær vikur.