Framsóknarmenn í Norðausturkjördæmi telja að í ljósi breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu skuli nú þegar hafinn undirbúningur, samningsmarkmið skilgreind og síðan farið í samningaviðræður um inngöngu í Evrópusambandið. Niðurstöður skulu lagðar í þjóðaratkvæði.
Í stjórnmálaályktun sem samþykkt var á kjördæmisþingi Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi á Egilsstöðum um helgina segir að í því starfi sem framundan er, skipti miklu að vandað verði til verka og að sú hugmyndafræði sem Framsóknarflokkurinn hafi ávallt byggt á, um öflugt velferðarkerfi á grundvelli þróttmikils atvinnulífs verði höfð að leiðarljósi.
Þá segir að innan Framsóknarflokksins hafi verið unnið mikið nefndarstarf við að skilgreina og skoða stöðu krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum með tilliti til framtíðarlausna. Niðurstaða nefndarinnar sé sú að ef leggja eigi niður íslensku krónuna væri rétt að taka upp alþjóðlegan gjaldmiðil. Evra er talin falla best að íslenskum þörfum vegna viðskiptahagsmuna þjóðarinnar.
Kjördæmisþingið styður samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn við núverandi aðstæður og telur Ísland ekki eiga annan kost í þeirri viðleitni að endurheimta fyrri stöðu í alþjóðasamfélaginu. Þingið átelur þann seinagang sem verið hefur í viðræðum við sjóðinn og telur að mikil verðmæti hafi farið forgörðum á síðustu vikum vegna þessa.
Í ályktun þingsins segir að allt bendi til þess að átök milli ríkisstjórnarflokkanna og neikvæð afstaða fomanns bankastjórnar Seðlabankans hafi seinkað ferlinu. Þá er framkoma breskra stjórnvalda gagnvart Íslandi átalin harðlega og lýst er stuðningi við lögsókn gagnvart breskum stjórnvöldum.