Ánægður en málinu ekki lokið

Geir H. Haarde ræðir við blaðamenn í Helsinki í dag.
Geir H. Haarde ræðir við blaðamenn í Helsinki í dag. norden.org/Johannes Jansson

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagðist síðdegis vera ánægður með fund sem hann átti með öðrum norrænum forsætisráðherrum í Helsinki í dag um lánafyrirgreiðslu frá seðlabönkum hinna Norðurlandanna. Málinu sé hins vegar ekki lokið.

Forsætisráðherrar ákváðu á fundinum að að aðstoða Ísland í efnahagserfiðleikunum. Hins var ákveðið að fela starfshópi norrænna embættismanna, að fylgjast með framgangi stöðugleikaáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um Ísland. Segjast ráðherrarnir í yfirlýsingu muni  styðja þessa áætlun þegar hún kemur til umfjöllunar í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Geir upplýsti á blaðamannafundi í Helsinki í dag, að óskað hefði verið formlega eftir lánafyrirgreiðslu hjá norrænu seðlabönkunum. Málið var síðan til umræðu á fundi forsætisráðherranna. Norska blaðið Aftenposten segir ekki ljóst hvað kunni að felast í aðgerðum, sem Norðurlöndin grípi til vegna Íslands og forsætisráðherrarnir hafi ekki náð niðurstöðu um fjárhæðir.  

Blaðið hefur eftir Geir að hann sé ánægður með að starfshópurinn hafi verið stofnaður og einnig með yfirlýsingar starfsbræðra sinna. Hann neitar því að það hafi valdið honum vonbrigðum, að ekki fengust ákveðin svör á fundinum í dag. 

„Ég þrýsti hvorki á norræna starfsbræður mína né norrænu seðlabankana," hefur blaðið eftir honum.

Í yfirlýsingu fundarins segir, að norrænu forsætisráðherrarnir hafi lagt áherslu á að seðlabankar Norðurlanda hafi þegar gert samning um gjaldmiðlaskipti við Seðlabanka Íslands og verið upplýstir um að aftur hafi verið farið fram á slík skipti við norrænu seðlabankana. Tekið er fram að Finnland sé hluti af Evru-svæðinu, en í samstarfi við önnur norræn ríki.

„Þessi ráðstöfun, ásamt þeim áformum íslensku ríkisstjórnarinnar að leita einnig eftir lánum frá öðrum seðlabönkum, eru mikilvægar aðgerðir til að efla tiltrú á frekari aðlögunaraðgerðir Íslendinga. Í samræmi við forsendur Alþjóðagjaldeyrissjóðins styðjum við viðleitni Íslendinga til að breyta efnahagskerfinu og snúa aftur á braut sjálfbærs hagvaxtar með verulegri aðlögun fjármálakerfisins, að lækkun á erlendri skuldastöðu og trúverðuga fjármálstefnu til lengri tíma. Til að ná þessu þarf að setja fram viðamikla umgjörð um efnahagsstefnuna til næstu ára," segir síðan.

Norrænu forsætisráðherrarnir sitja í kvöld fund með leiðtogum Eystrasaltsríkjanna og þeir halda sameiginlegan blaðamannafund á morgun.

Tilkynning norræna forsætisráðherrafundarins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert