Hamfarir í Húsavíkurhöfn

Grjótgarðurinn gekk allur til í öldurótinu
Grjótgarðurinn gekk allur til í öldurótinu mbl.is

„Það er bara eitt orð yfir þetta, þetta eru náttúruhamfarir og það eru skemmdir hérna upp á tugi milljóna,“ segir Stefán Stefánsson, hafnarvörður á Húsavík þar sem mikið tjón varð í storminum um helgina. „Þetta var bara hafrót, öldurnar voru að meðaltali 13-14 metra háar  og þá segja þeir á Siglingastofnun að inn á milli geti komið stærri öldur sem eru allt að 20 metrum.“

Menn frá Siglingastofnun eru á Húsavík í dag til að meta tjónið, sem Stefán segir án vafa hlaupa á tugum milljóna króna. „Það hefur gengið til grjót í 10 metra kafla í garðinum sjálfum sem þarf að laga og jafnvel hækka, og svo eru vatnslagnir og allt saman í klessu líka.“ Stefán segir skemmdirnar líka ná suður með bökkum þar sem brimið hafi gengið upp á miðja bakka og grjótvörnin sem þar var sett fyrir 15-20 árum sé nánast öll farin út á sjó.

Björgunarsveitir voru kallaðar út á föstudagskvöldið til að gæta að bátunum og flotbryggju í innri höfninni, en Stefán segir að ekki hefði verið stætt á varnargarðinum til að reyna að fyrirbyggja tjón þar. „Sá maður væri bara í hafinu núna.“

Stefán segist ekki vilja hugsa til þess hvernig farið hefði ef ekki væri fyrir nýja bermugarðinn sem var byggður fyrir 10 árum eða svo. „Það eru allt upp í 30 tonna steinar í þessu og ég held að það hefði allt verið í kássu hérna í innri höfninni þar sem bátarnir eru ef hann væri ekki kominn, það hefði verið alveg svakalegt.“

Starfsemi í höfninni mun ekki raskast þrátt fyrir tjónið en Stefán segir að uppbygging muni taka einhverjar vikur.

Stóra grjóthnullunga skolaði ýmist langt upp á land eða út …
Stóra grjóthnullunga skolaði ýmist langt upp á land eða út á sjó mbl.is
mbl.is/Hafþór
Björgunarsveitir voru kallaðar út um helgina til að gæta að …
Björgunarsveitir voru kallaðar út um helgina til að gæta að bátum í höfninni mbl.is/Hafþór
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert