Íslensk stjórnvöld hafa óskað eftir því með formlegum hætti við Norðurlöndin, þ.e. Danmörk, Svíþjóð, Noreg og Finnland, að þau veiti Íslendingum lán. Frá þessu greindi Geir H. Haarde forsætisráðherra, á blaðamannafundi eftir fund forsætisráðherra landanna í Finnlandi í dag.
„Við höfum lagt fram beiðni um lán hjá öllum norrænu [seðla]bönkunum,“ sagði Geir á blaðamannafundi í Helsinki í dag. Þar funduðu forsætisráðherrar Norðurlandanna fimm um fjármálakreppuna, en þeir eru nú staddir í Finnlandi vegna Norðurlandaráðstefnunnar sem hófst í dag.
„Ég er ekki reiðubúinn að greina í smáatriðum frá því sem við höfum óskað eftir,“ segir Geir.
Á blaðamannafundinum skýrði Geir frá því hvaða erfiðleikum Íslendingar standi nú frammi vegna fjármálakreppunnar.
Geir mun hitta starfsbræður sína síðar í dag til að ræða mögulegan björgunarpakka.
„Allir starfsbræður mínir hafa lýst yfir vináttu og stuðningi, auk þess hafa þeir sýnt fram á að þeir eru reiðubúnir að aðstoða Ísland,“ sagði Geir.
Geir benti á möguleika þess að sameina lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við aðstoð Norðurlandanna, og mögulega við hið umdeilda Rússalán. Geir lagði hins vegar áherslu á að enn eigi eftir að ganga frá nokkrum samkomulagsatriðum.
Þá sagði Geir að hann ætti von á frekari viðræðum við norrænu forsætisráðherrana í dag og að hann vonaði að sá vandi sem hafi skapast vegna fjármálakreppunnar verði fyrsta skrefið að því að samstarf Norðurlandanna muni aukast enn frekar.