Hópur íslenskra hönnuða tekur þátt í hinni fjölsóttu sýningu 100% design tokyo sem hefst á fimmtudag en skipulag er í höndum Útflutningsráðs Íslands.
„Þetta er í fyrsta sinn sem við komum að sýningunni í Tókýó en hún er ein virtasta hönnunarsýning í heimi og laðar að sér fjölda fólks á ári hverju,“ segir Berglind Steindórsdóttir, hjá Útflutningsráði, í tilkynningu. En húnfylgir hópnum til Japan.
„Mikið hefur verið lagt í íslenska básinn sem hefur skírskotun til stuðlabergs og er mjög glæsilegur. Básinn er hannaður á Íslandi af Theresu Himmer en smíðaður í Japan.“
Sýningunni 100% design var hleypt af stokkunum í London árið 1995 en hún hefur jafnframt verið haldin í Tókýó frá árinu 2005 og er árlegur viðburður. Á sýningunni er aðallega kynnt sérvalin innanhússhönnun; húsgögn, eldhús- og baðherbergisvörur auk heimilistextíls. Markmið sýningarhaldara er að gera nýstárlegri og framúrstefnulegri hönnun sem hæst undir höfði.
Á síðasta ári sóttu 85 þúsund gestir sýninguna í Tókýó heim en sýnendur voru ríflega 200 þúsund talsins.
Hönnuðirnir sem sýna saman í Tókýó eru Daníel Magnússon, Erla Sólveig Óskarsdóttir, Chuck Mack, Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, Sruli Recht, Ingibjörg Bjarnadóttir, Ragnheiður Ösp Sigurðardóttir, Róshildur Jónsdóttir, Brynhildur Pálsdóttir, Egill Kalevi Karlsson, Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir, Hrafnkell Birgisson, Þuríður Rós Sigurþórsdóttir, Snæfríð Þorsteinsdóttir, Sigríður Sigurjónsdóttir, Kristín Garðarsdóttir og Katrín Ólína Pétursdóttir.