„Það er mjög erfitt að átta sig á því hve mikið er af síld hér á svæðinu. Aðstæður eru mjög erfiðar og síldin heldur sig utan í hólmum og skerjum og svo er mikil ferð á henni. Hún syndir hér fram og til baka og sennilega fylgir hún föllunum,“ sagði Albert Sveinsson skipstjóri á Faxa RE í samtali við heimasíðu Granda. Hann var þá að snurpa á Kiðeyjarsundi út af Stykkishólmi eftir þriðja kast dagsins.
Faxi RE kom á miðin í Breiðafirði sl. laugardag eftir siglingu frá Akranesi þar sem nót var tekin um borð. Að sögn Alberts byrjaði hann veiðarnar á Breiðasundi en þar var lítinn afla að hafa.
„Það er ákaflega erfitt að stunda veiðarnar eins og aðstæður eru hér. Síldin er sömuleiðis mjög stygg og mér sýnist að við verðum að bregðast við því með því að fá okkur lengri nót,“ segir Albert í samtali við heimasíðu Granda.
Albert segir að síldin sé ágætlega stór og uppistaðan í aflanum er um 320 gramma síld. Í gær var afli skipsins orðinn um 500 tonn og taldi Albert að með aflanum í fyrstu tveimur köstunum í morgun væri heildaraflinn kominn í um 650 tonn.
„Þetta þriðja kast lítur reyndar ágætlega út og er trúlega það besta hjá okkur í dag,“ sagði Albert.
Förinni er nú heitið til Vopnafjarðar. Taldi Albert góðar líkur á að megnið af aflanum myndi henta til vinnslu. Það er reyndar rúmlega sólarhrings sigling úr Breiðafirðinum til Vopnafjarðar og því gætu gæði hráefnisins ráðist af því hvernig veðrið verður á leiðinni.
Því má við þetta bæta að þegar rætt var við Albert nú um miðjan dag var Faxi RE lagður af stað áleiðis til Vopnafjarðar með alls um 800 tonna afla.
Ingunn AK og Lundey NS á veiðum í Síldarsmugunni
Hin tvö uppsjávarveiðiskip HB Granda, Ingunn AK og Lundey NS, hafa verið að veiðum í Síldarsmugunni. Afli Ingunnar AK var í morgun kominn í um 370 tonn og Lundey NS var þá með um 500 tonna afla. Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, brældi á veiðisvæðinu í gærkvöldi og eru skipin nú á leiðinni áleiðis inn í norsku lögsöguna.