Mögulegt er, að pólska súkkulaðikexið Prince Polo verði ekki fáanlegt hér á landi í einhvern tíma. Segir Ásbjörn Ólafsson ehf., sem flytur kexið inn, að ástæðuna megi rekja til fjármálakreppunnar hér á landi.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að frá því það hóf að flytja Prince Polo inn frá Póllandi um miðjan sjötta áratug síðustu aldar hafi aðeins einu sinni gerst að „þjóðarsælgæti“ Íslendinga seldist upp. Það var í upphafi níunda áratugarins þegar verkföll Samstöðu lömuðu allt efnahagslíf í Póllandi. Mikið fát hafi orðið í verslunum þegar Prince Polo kom loks aftur til landsins og biðraðir myndast þegar kexið varð aftur fáanlegt.
„Í gegnum allar þær efnahagslægðir sem komið hafa frá því á sjötta áratugnum þá hafa aðstæður hér á landi aldrei orðið þess valdandi að Prince Polo seljist upp á Íslandi. Alltaf hefur verið hægt að koma Prince Polo til landsins. En eins og ástandið er í efnahagslífi og gjaldeyrismálum Íslands í dag þá er sá möguleiki fyrir hendi að Prince Polo... verði ekki fáanlegt í einhvern tíma," segir í tilkynningunni.