Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í kvöld þrjá karlmenn sem eru grunaðir um að hafa farið inn í íbúð við Hverfisgötu á laugardagskvöld og ráðist á íbúana með bareflum. Karlmanni, sem var handtekinn í gær í tengslum við málið, hefur verið sleppt.
Fjórir grímuklæddir menn réðust inn í íbúðina á laugardagskvöld og börðu fjóra íbúa með stálrörum og hafnaboltakylfum. Þegar lögreglan kom á staðinn voru árásarmennirnir á bak og burt. Tveir hinna særðu voru fluttir á slysadeild með höfuðáverka. Hinir vildu ekki þiggja læknisaðstoð þrátt fyrir að tennur hefðu verið brotnar í þeim og skurði og áverka á baki.
Árásarmennirnir eru af erlendu þjóðerni, og verða þeir yfirheyrðir í kvöld.
Mennirnir sem ráðist var á eru einnig erlendir.