„Ég var ekki í nokkrum vafa, eftir samtalið sem ég átti við [íslenska] fjármálaráðherrann, og það mátti ráða af samtalinu í heild, ekki bara af hluta þess - að íslensk yfirvöld myndu ekki geta komið til móts við breska innistæðueigendur. Þess vegna varð ég að tilkynna að við myndum grípa inn í og gæta hagsmuna þeirra,“ sagði Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, í samtali við bresku sjónvarpsstöðina Channel 4 á föstudag.
Á fimmtdagskvöldið birti Kastljós Ríkissjónvarpsins afrit af samtali Darling og Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sem fram fór milli ráðherranna 7. október s.l. Í kjölfar þess að afritið birtist í íslenska sjónvarpinu, birtu breskir fjölmiðlar samtalið einnig.
Í viðtalinu við Channel 4 ræddi Darling nánar um stöðu Breta sem áttu innistæður á Icesave-reikningum Landsbankans. „Málin standa þannig að þeir [Íslendingar] hafa enn ekki tryggt stöðu breska innistæðueigenda. Ég hef sent tvö teymi á vegum fjármálaráðuneytisis til Íslands en ég óttast að enn hafi eki náðst samkomulag um málið.“
Darling sagði jafnframt að bresk yfirvöld ynnu með ríkisstjórn Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF), sem myndu sennilega þurfa að aðstoða Íslendinga. Eitt af þeim skilyrðu sem Bretar vildu setja væri að staða bresku sparifjáreigendanna yrði tryggð. „Ég þurfti því miður ekki að velkjast í neinum vafa um það þegar ég ræddi við þá fyrr í þessum mánuði um að ekki átti að tryggja hag breskra innistæðueigenda. Til þessa dags hafa íslensk stjórnvöld ekki séð til þess að það verði gert.“