Hringtorg, sem byggt er yfir Reykjanesbraut í Kópavogi, verður opnað í lok nóvember. Þetta er fyrsta mannvirki sinnar tegundar á Íslandi. Erlendis eru svona umferðarlausnir algengar og hafa reynst vel, að sögn Jónasar Snæbjörnssonar, svæðisstjóra hjá Vegagerðinni. Arkitektastofan Úti og inni og verkfræðistofan VST hönnuðu mannvirkið.
Verktakar við framkvæmdina voru Suðurverk og Skrauta. Verkið hefur gengið mjög vel og verður umferð hleypt á hringtorgið hálfu ári fyrr en áætlað var. Tilboð Suðurverks og Skrautu hljóðaði upp á 670 milljónir króna og til viðbótar mun Vegagerðin greiða fyrirtækjunum 35 milljónir í svokallað flýtifé. Jónas segir að flýtifé sé greitt vegna þess hve mikill akkur það þyki fyrir vegfarendur að fá mannvirkið í gagnið svo miklu fyrr en áætlað var. Með tilkomu hringtorgsins losni vegfarendur við ljósastýrð gatnamót sem voru á þessum stað.
Jónas segir að ekki sé algengt að verktakar skili verkum til Vegagerðarinnar svo löngu áður en þeim beri, eins og raunin sé í þessu tilfelli. Vegagerðin veiti verktökum venjulega rúman tíma til framkvæmda og ekki hafi þótt ástæða til að pressa þá til að klára þetta fyrir veturinn. Hins vegar hafi komið í ljós að Suðurverk og Skrauta hygðust skila verkinu fyrir veturinn og hafi miðað allar sínar verkáætlanir við það. Þetta sé auðvitað mjög jákvætt. Hann segir að nokkur smáverk verði að bíða næsta sumars, sáning og ýmis frágangur.
Skammt frá nýja hringtorginu, á gatnamótum Reykjanesbrautar og Vífilsstaðavegar, er einnig unnið að smíði nýrra gatnamóta. Það verk er einfaldara í sniðum en engu að síður hafa orðið tafir á verkinu.
Því átti að ljúka 1. nóvember en ljóst er að sú tímasetning stenst ekki hjá verktökunum Risi og Glaumi. Að sögn Jónasar gerir Vegagerðin sér vonir um að verkinu ljúki fyrir árslok.
Þegar þeim áfanga lýkur verða merk tímamót á vestari hluta Reykjanesbrautar. Brautin verður án umferðarljósa.