Um 53.200 manns höfðu í gærkvöldi undirritað ávarp Íslendinga til bresku ríkisstjórnarinnar.
Eftir að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, beitti hryðjuverkalögum gegn Íslendingum fóru einstaklingar af stað og sömdu yfirlýsinguna „Íslendingar eru ekki hryðjuverkamenn“. Þar er þess farið á leit við bresku þjóðina að hún standi með Íslendingum í þeirri viðleitni að binda enda á diplómatískar erjur milli ríkisstjórna landanna til þess að hægt verði að koma í veg fyrir frekara efnahagslegt tjón. Fólk er hvatt til að bæta nafni sínu við undirskriftalista á vefnum (www.indefence.is) sé það sammála inntaki yfirlýsingarinnar.