Bensínið ætti að vera ódýrara

FÍB segir að lækka þurfi bensínverð hérá landi.
FÍB segir að lækka þurfi bensínverð hérá landi. mbl.is/Golli

 „Miðað við forsendur álagningar hefðum við viljað sjá að bensínverð væri um það bil 10 krónum lægra [á lítra] til neytenda í dag en það er,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda. FÍB gagnrýnir olíufélögin fyrir að láta undir höfuð leggjast að skila lækkun heimsmarkaðsverðs á olíu til neytenda, en verðið hefur lækkað stöðugt frá því í sumar.
Már Erlingsson, innkaupastjóri hjá Olís, segir ekki ólíklegt að lækkun verði í dag.

Verðmálin séu í stöðugri skoðun. Már segir lækki bensínið muni sú lækkun þó ekki nema tíu krónum á hvern lítra.

Hjá FÍB hafa menn fylgst með þróun heimsmarkaðsverðs á olíu og uppreiknað það til verðlags í íslenskum krónum miðað við gengi Seðlabankans. „Til viðmiðunar höfum við útsöluverð til neytenda hér á landi og þá skatta sem á bensín og díselolíu leggjast," segir Runólfur.

Runólfur segir að sé kostnaður neytenda við álagningu olíufélaganna frá 1-27. október skoðaður omi í ljós að hann sé að meðaltali um það bil 10 krónum meiri á hvern lítra en að meðaltali í fyrra. Þetta gildi bæði um bensín og díselolíu og þarna muni töluverðum fjárhæðum.

Olíuverð hefur lækkað jafnt og þétt frá því í sumar og Runólfur tekur sem dæmi að í gær hafi tonnið af bensíni á heimsmarkaði kostað um 510 dollara. „Ef við förum mánuð aftur í tímann, þá kostaði þetta sama tonn 895 dollara," segir hann. Fyrir tveimur mánuðum hafi heimsmarkaðsverðið verið um 100 dollarar. „Þetta er því um helmings lækkun á tveimur mánuðum," bendir Runólfur á. 

Íslenskir neytendur hafi ekki notið lækkunar olíuverðs í sama mæli og fólk í nágrannalöndunum, sökum gengishruns krónunnar. „En ofan á þetta hefur álagning líka hækkað, þannig að við njótum ekki þeirrar lækkunar sem þó gæti verið að skila sér vegna þess að álagning söluaðila hefur hækkað," segir Runólfur. Olíufélögin virðist nota fall krónunnar sem skálkaskjól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert