Fá 60-74 prósent af virði peningabréfanna

Landsbankinn slítur peningamarkaðssjóðunum sínum í dag. Sjóðirnir verða gerðir upp og greiddir út til viðskiptavina. Uppgreiðsluhlutfallið á peningabréfunum er misjafnt eftir mynt. Þeir sem eiga peningabréf í íslenskum krónum fá 68,8 prósent greidd, þeir sem eiga peningabréf í evrum fá 67,3 prósent.

Eigendur peningabréfa í dönskum krónum fá 70,1 prósent, 60 prósent af peningabréfum í dollurum verða greidd út og 74,1 prósent af peningabréfum í pundum. Þetta er samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum Morgunblaðsins.

Allir eigendur Peningabréfa fá virði hlutar síns greiddan 29. október 2008. Það verður lagt inn á innlánsreikninga hjá Landsbankanum. Innistæðurnar eru sagðar að fullu tryggðar. Bankinn ætlar að senda bréf heim til allra eigenda peningabréfa á næstu dögum þar sem upplýsingar um útgreiðsluupphæðina og innlánsreikningurinn verða gefnar upp.

Samkvæmt upplýsingum frá Kaupþingi er vinna við að gera upp sjóðina á lokastigi. Upplýsingar um hvernig greiðslu úr þeim verður háttað berast á allra næstu dögum, jafnvel í dag eða morgun. Búast má við því að hlutfallið verði ekki lægra en hjá Landsbankanum.

Hjá Glitni fengust þær upplýsingar að ekki væri hægt að gefa upp um stöðuna á peniningamarkaðssjóðunum þar fyrr en búið væri að  tilkynna Kauphöll Íslands um niðurstöðuna. Reiknað er með því að það verði í dag eða á morgun. Unnið sé að því öllum árum að klára málið.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert