Færeyska landsstjórnin hefur ákveðið að veita Íslandi 300 milljóna danskra króna gjaldeyrislán, jafnvirði rúmlega 6,1 milljarðs íslenskra króna. Allir stjórnmálaflokkar í Færeyjum eru samþykkir þessari ráðstöfun.
Fram kemur í tilkynningu frá færeysku lögmannsstofunni, að á fundi sem fulltrúar færeyskra og íslenskra stjórnvalda hafi setið í Helsinki í Finnlandi í dag, þar sem þing Norðurlandaráðs er haldið, hafi verið rætt um erfiða stöðu Íslands og m.a. komið fram að Íslendinga skorti sárlega gjaldeyri.
Fulltrúar færeysku landsstjórnarinnar lýstu því yfir, að eftir samráð við alla flokka í Færeyjum hefði verið ákveðið að bjóða Íslandi 300 milljóna danskra króna gjaldeyrislán og yrði upphæðin tekin af innistæðu færeyska landssjóðsins í landsbankanum í Færeyjum.
Málið verður nú lagt fyrir færeyska Lögþingið sem þarf að samþykkja lánveitinguna.
Fundinn í Helsinki sátu Kaj Leo Johannesen, lögmaður Færeyja, Jørgin Niclasen, utanríkisráðherra Færeyja, Jóannes Eidesgaard, fjármálaráðherra Færeyja, Geir H. Haarde, forsætisráðherra og Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra.