Félag íslenskra bifreiðaeigenda segir, að lækkun olíuverðs á heimsmarkaði hafi ekki skilað sér nema að hluta til íslenskra neytenda. Ástæðurnar séu gengishrun krónunnar og aukin álagning olíufélaganna á bensín og olíu.
Félagið segir að mörg fyrirtæki hafi að undanförnu komið til móts við neytendur að undanförnu með hlutfallslegri lækkun á vöruverði til þess að draga úr neikvæðum vísitöluáhrifum gengisfalls krónunnar. Þetta eigi því miður ekki við um olíufélögin.
„Olíuinnflutningsfyrirtækin hafa það fram yfir aðra á markaði að þurfa
ekki að búa við takmarkanir á gjaldeyri til olíukaupa sem fyrr segir.
Fyrir það ættu þau ekki að þakka þjóð sinni með því að láta undir höfuð
leggjast að skila lækkun olíuverðs til neytenda sem aftur hækkar
vísitölu neysluverðs og kyndir þannig undir verðbólgubálinu. Í ljósi
aðstæðna hlýtur það að vera siðferðisleg skylda olíufélaganna að lækka
bensín og dísilolíu til neytenda strax. Ekkert fyrirtæki lifir án
viðskiptavina og það ríður á að allir leggi sitt lóð á vogarskálarnar," segir á vef FÍB.