Aðstandendur síðunnar Indefence, þar sem undirskriftum er safnað til að mótmæla ósanngjarnri meðferð breskra stjórnvalda á íslenskum almenningi, ætla að opna símaver í gamla Morgunblaðshúsinu að Aðalstræti 6 á morgun þar sem fólk getur komið til að hringja frítt í vini og kunningja erlendis.
Tíu símar opnir til úthringinga um allan heim. Símamiðstöðin verður opin frá 15 til 20 næstu daga.
Þá er einnig búið að setja upp ljósmyndasýningu, sem sýnir myndir af íslenskum „hryðjuverkamönnum“. „Það er búið að stækka myndirnar sem búið er að setja á vefinn og hengja þær upp,“ segir Jóhann Þór Skúlason, einn aðstandenda verkefnisins í samtali við mbl.is.
Jóhann segir fjölda manns leggja verkefninu lið í sjálfboðavinnu, m.a. framhaldsskólanema. Þeir muni verða með spjöld m.a. í Kringlunni og Smáralind þar sem fólk getur skrifað undir áskorunina, auk þess sem þeir muni kynna verkefnið.
„Þetta er síðasta atlagan að því að fá sem flestar undirskriftir,“ segir Jóhann.
„Við erum að finna fyrir miklum áhuga, sérstaklega erlendis frá. Ég veit ekki hvað við erum búnir að tala við marga erlenda fréttamenn í dag,“ segir hann. Áhuginn er einna mestur frá Bretlandi en einnig frá frá mörgum öðrum löndum í Evrópu, en einnig frá Bandaríkjunum. T.d hefur gríska ríkissjónvarpið sett sig í samband við skipuleggjendur til að forvitnast um mótmælin.
Þegar þetta er skrifað eru 60.911 búnir að undirrita ávarp Íslendinga til bresku ríkisstjórnarinnar.