Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á blaðamannafundi í Helsinki eftir fund norrænu forsætisráðherranna þar, að Ísland hefði á föstudag leitað til Seðlabanka Evrópu og bandaríska seðlabankans eftir lánafyrirgreiðslu.
Geir upplýsti á blaðamannafundi í gær, að íslensk stjórnvöld hefðu einnig leitað til seðlabanka hinna Norðurlandanna um lánafyrirgreiðslu og gjaldeyrisskiptasamninga.
„Seðlabanki Íslands sendi ósk til ECB (Seðlabanka Evrópu), bandaríska seðlabankans og norrænu bankanna á föstudag," sagði Geir á blaðamannafundinum. Hann sagði að ekki hefðu borist svör enn.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun væntanlega lána Íslandi 2 milljarða dala en fram kemur komið, að íslenska ríkið þurfi 4 milljarða dala lán til viðbótar til að mæta hruni íslensku bankanna og gjaldeyriskreppunni.
Fram hefur komið hjá Seðlabanka Íslands, að leitað hafi verið í sumar til seðlabanka Evrópu og Bandaríkjanna um gjaldeyrisskiptasamninga en án árangurs.