Siðferðileg skylda að hjálpa Íslendingum

Jóannes Eidesgaard, fjármálaráðherra Færeyja, og Geir H. Haarde forsætisráðherra, sjást …
Jóannes Eidesgaard, fjármálaráðherra Færeyja, og Geir H. Haarde forsætisráðherra, sjást hér þegar Eidesgaard heimsótti Ísland síðast. Hann var þá lögmaður eyjanna. mbl.is/Brynjar Gauti

Jóhannes Eidesgaard, fjármálaráðherra Færeyja, segir það vera siðferðislega skyldu Færeyinga að aðstoða Íslendinga í fjármálarkreppunni. Hann segir að allir stjórnmálaflokkar í landinu hafi lagt blessun sína yfir það að veita Íslendingum lán að andvirði 300 milljónir danskra kr.

Í samtali við mbl.is segir Eidesgaard að Færeyingar skilji vel hvað Íslendingar séu að fara í gegnum. Hann bendir á að í upphafi tíunda áratugarins hafi verið bankakreppa í Færeyjum.

„Trúverðugleikinn var enginn og við gátum hvergi fengið lán,“ segir hann. Dönsk stjórnvöld hafi í framhaldinu samþykkt að veita Færeyingum lán að andvirði 2,7 milljónir danskra króna. „Það gerði okkur kleift að fá lán,“ segir hann og bætir við að upphæðin hafi verið sett inn í færeyska bankakerfið.

„Ég hef unnið að þessu í þónokkurn tíma og ég hef átt í viðræðum við starfsbræður mína í Reykjavík,“ segir hann og bætir því við að hann hafi þurft að fá að vita hvort íslenskum stjórnvöldum hafi litist vel á hugmyndina eður ei.

Mikilvægt að geta rétt Íslendingum hjálparhönd

„Það er afar mikilvægt fyrir okkur að geta rétt Íslendingum hjálparhönd á þessum erfiðu tímum. Við erum næstu nágrannar ykkar og það liggur því í augum uppi að grípa til þessara aðgerða,“ segir Eidesgaard og bendir á að hann hafi rætt um þetta við alla stjórnmálaflokkana í Færeyingum og leitað eftir samþykki þeirra. „Allir flokkarnir samþykktu áætlunina. Það er því afar auðvelt fyrir mig að koma þessu í framkvæmd.“

Eidesgaard segir að Geir Haarde, forsætisráðherra Íslands, hafi verið djúpt snortinn þegar Færeyingar buðu fram aðstoð sína í dag.

Jóhannes Eidesgaard segir ljóst að upphæðin, 300 milljónir danskra króna, jafnvirði um 6,1 milljarður íslenskra króna, sé ekki nægilega há til að koma öllu í lag á Íslandi. Þetta sé hins vegar afar há upphæð sé horft til stærðar færeyska hagkerfisins.

Aðspurður segir Eidesgaard að færeysk stjórnvöld hafi íhugað málið vel áður en ákvörðunin var tekin. „Ég vil ekki vera óábyrgur hvað þetta varðar. [...] Ég veit hins vegar að við munum einhverntíma fá féð til baka.“

Ekki liggur fyrir hvenær Íslendingar fá lánið, en Eidesgaard vonast til að það verði eins fljótt og auðið er. Það eigi eftir að ræða málið í smáatriðum. Spurður um þau skilyrði sem Færeyingar setji segir Eidesgaard að hann vilji að Íslendingar þurfi ekki að greiða vexti af láninu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka