Stofnaður hefur verið nýr sjóður til styrktar, sem kallast ÞÚ GETUR!, þeim sem eiga við geðræna vanlíðan að stríða. Markmið sjóðsins eru að styrkja þá til náms sem átt hafa við geðræn veikindi að stríða, að efla nýsköpun og bætta þjónustu við geðsjúka á sviði fræðslu og forvarna og að stuðla að umræðu og aðgerðum sem draga úr fordómum í samfélaginu.
Fram kemur í tilkynningu að umfjöllun um geðræna vanlíðan og fordóma sé afar mikilvæg á tímum áfalla og álags sem nú séu á Íslandi. Álagstengda vanlíðan megi með ýmsum ráðum bæta og góð meðferðarúrræði séu til gegn geðrænum veikindum. Að auki sé fræðsla og opin umræða mikilvægir þættir til forvarna.
Geðsjúkdómar eru meðal algengustu sjúkdóma og valda þjáningum hjá
sjúklingum og álagi á aðstandendur. Þessir sjúkdómar byrja oft í
kjölfar álags og áfalla og geta skert starfsgetu og lífsgæði. Þrátt
fyrir miklar framfarir í meðferðarmöguleikum og aukna þjónustu,
félagslegan stuðning og endurhæfingu, er mikil þörf fyrir frekari
sérhæfingu og aukna möguleika til eflingar. Alþjóða
heilbrigðisstofnunin (WHO) hvetur mjög til aukinnar fræðslu fyrir
sjúklinga og eflingu menntunar fagstétta. Möguleikar á styrkjum til
slíkra málefna hafa því miður verið takmarkaðir hérlendis fram að þessu.
Þá er fólk hvatt til að taka frá miðvikudagskvöldið 12. nóvember kl. 20, en þá verða haldnir styrktartónleikar í Háskólabíó þar sem helstu tónlistarmenn og skemmtikraftar þjóðarinnar koma fram.
Miðar verða seldir í verslunum LYFJU.
Stofnandi sjóðsins er Ólafur Þór Ævarsson, dr. med., geðlæknir og í stjórn sitja auk hans, Ása Ólafsdóttir hrl., lögmaður, Siv Friðleifsdóttir alþingismaður og f.v. heilbrigðisráðherra, sr. Pálmi Matthíasson sóknarprestur í Bústaðasókn og dr. Sigurður Guðmundsson landlæknir.
Tekið er við framlögum um heimabanka á reikning í SPRON nr. 1158-26-1300 en kennitala sjóðsins er 621008-0990.
Nánari upplýsingar er að finna hér.