50 manns sagt upp á Suðurlandi

Tvö fyrirtæki í byggingaiðnaði á Selfossi hafa ákveðið að segja öllu sínu starfsfólki upp störfum. Þá verður starfsfólki stórrar verslunarkeðju á Selfossi fækkað. Um 50 manns missa vinnuna hjá þessum fyrirtækjum, eftir því sem fram kemur á heimasíðu stéttarfélagsins Bárunnar.

„Það syrtir í álinn fyrir margt Sunnlenskt verkafólk þessa dagana og framundan eru svört mánaðamót. Samkvæmt heimildum félagsins var þessi ákvörðun fyrirtækjanna tekin í gær eftir að Seðlabankinn ákvað að hækka stýrivexti úr 12% í 18% og með því skorið á líflínu heimilanna og verkafólks sem þurfa nú mörg hver að berjast, bæði við atvinnuleysi og gríðarlega lánabyrði,“ segir á heimasíðu Bárunnar.

Þá segir að mörg önnur fyrirtæki á félagssvæðinu hafi tilkynnt félaginu um fækkun starfsfólks, þó þar sé ekki um hópuppsagnir að ræða.

Flestir þeirra félagsmanna sem nú lenda í uppsögnum hafa aðeins áunnið sér eins mánaðar uppsagnafrest og gerir félagið ráð fyrir að allt að 50 manns missi vinnuna um þessi mánaðamót. Sú tala getur auðveldlega hækkað.

Báran telur að ekki verði hægt að una við þessa stöðu í efnahagsmálum og bráðnauðsynlegt að komi til mótvægisaðgerða að hálfu ríkisvaldsins og lánardrottna til að létta byrðar atvinnulífsinns og launafólks sem nú eru um það bil að sigla inn í svartnættið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert