Ljóst er að tap sveitarfélagsins Árborgar vegna peningabréfa í Landsbankanum nemur um 110 milljónum króna. Ragnheiður Hergeirsdóttir bæjarstjóri útilokar ekki málsókn þar sem bankinn greiðir aðeins 68,8 prósent af inneign þess fyrir gjaldþrotið út.
„Við vorum að fá þessar upplýsingar og skoðum málið í heild sinni. Við hljótum að ganga eins langt við getum við að gæta hagsmuna sveitarfélagsins. Það er okkar skylda.“
Henni er þó létt að tap sveitarfélagsins verður ekki meira. „Við keyptum peningabréf fyrir 730 milljónir króna. Við höfum nýtt af bréfunum til framkvæmda og áttum 350 þegar reikningunum var lokað. Tapið er minna en ávöxtunin. Við töpuðum því ekki höfuðstólnum,“ segir hún.
Ragnheiður bendir á að peningabréfin hafi verið kynnt sem örugg ávöxtunarleið. „Sveitarfélögin hafa ekki haft aðra tryggingu en bankanna. Þau hafa ekki tryggingu Seðlabankans eins og ríkið. Áður en forsætisráðherra sagði að innlánin yrðu tryggð að fullu gat sveitarfélagið ekki búist við að meira en þrjár milljónir af innlánum þess væru tryggðar í bönkum landsins, hefði upphæðin verið á innlánsreikningi.“