Beiting hryðjuverkalaga gagnrýnd

mbl.is

Tillögur bresku stjórnarinnar um að frysta eigur Landsbankans í landinu til tryggingar fyrir innistæðum Breta voru samþykktar í lávarðadeildinni í gærkvöldi eftir talsverðar umræður þótt fáir væru í salnum. Nýr aðstoðarviðskiptaráðherra, Myners lávarður, mælti fyrir tillögunum sem þurftu formlegt samþykki beggja deilda þótt aðgerðirnar hafi tekið gildi fyrir nokkru.

Flestir sem tóku til máls vörðu aðgerðir stjórnvalda en gagnrýndu samt margir að beitt skyldi umdeildum lögum sem m.a. beinast gegn hryðjuverkum. Einnig var varpað fram þeirri spurningu hvort farið hefði verið offari gegn Kaupþingi og loks bent á að Íslendingar rengdu fullyrðingar um að þeir hefðu ekki ætlað að standa við lagalegar skuldbindingar sínar. Sagði einn lávarðanna að Alistair Darling fjármálaráðherra stæði nú í „barnalegum deilum við starfsbróður sinn á Íslandi um það hver hafi sagt hvað og hvenær“.

Myners sagði að enn væri reynt að leysa deilurnar með viðræðum við Íslendinga. Hann rakti rök stjórnvalda um að ekki hefðu fengist fullnægjandi svör frá íslenskum stjórnvöldum um að breskar innistæður yrðu greiddar ekki síður en innistæður bankans á Íslandi.

Óhjákvæmilegt hefði verið að nota lög sem taka til hryðjuverka og annarra glæpa sem ógnað gætu fjárhagslegum hagsmunum þjóðarinnar en ráðherrann tók skýrt fram að sjálfum hryðjuverkaákvæðum þeirra hefði ekki verið beitt. Bretar litu alls ekki á íslensku þjóðina sem hryðjuverkamenn, þeir væru vinaþjóð sem Bretar dáðu og virtu, þrátt fyrir þessar deilur.

„Það var líka nauðsynlegt að koma í veg fyrir að áhrifin [af yfirvofandi hruni bankanna] breiddust út í fjármálakerfi Bretlands...Það getur vel verið að þetta hafi ekki verið þokkafullt en þetta virkaði,“ sagði Myners. Um Kaupþing sagði ráðherrann að aðgerðirnar gegn þeim banka hefðu byggst á áliti breska fjármálaeftirlitsins sem hefði sagt að bankinn gæti ekki lengur staðið við skuldbindingar sínar. Myners sagði að breska stjórnin hefði ekki byggt aðgerðir sínar á samtali við einn íslenskan ráðherra heldur „fjölda samtala við ráðherra og ýmsa embættismenn“ Íslendinga.

Noakes barónessa, sem er í Íhaldsflokknum, gagnrýndi að umræddum lögum gegn hryðjuverkum skyldi beitt. Fullyrt væri nú að Íslendingar hefðu ætlað að hundsa skuldbindingar sínar gagnvart Bretum. „En íslenska ríkisstjórnin hefur birt texta símtals milli breska fjármálaráðherrans og þess íslenska sem sýnir að þetta virðist ekki vera algerlega satt,“ sagði Noakes. Hún spurði hver hefði þá verið grundvöllur aðgerðanna og jafnframt hvort Myners teldi í ljósi þessa að viðeigandi hefði verið að beita frystingunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert