Formaco segir upp 70 manns

Formaco ehf. veitir fyrirtækjum í byggingariðnaði þjónustu af ýmsu tagi.
Formaco ehf. veitir fyrirtækjum í byggingariðnaði þjónustu af ýmsu tagi. mbl.is/þorkell

Formaco sagði í gær upp öllum starfssamningum við starfsfólk. Uppsagnirnar taka til rúmlega 70 manns. Ástæðurnar eru samdráttur á byggingamarkaði. Formaco hefur framleitt glugga og flutt inn efni og búnað fyrir byggingarverktaka. Ragnar Jóhannsson, framkvæmdastjóri segir að einhver hluti starfsmanna verði endurráðinn í kjölfar endurskipulagningar.

„Þetta er nauðsynleg ráðstöfun eins og ástandið er í dag. Við þurfum að aðlaga fyrirtækið að breyttum aðstæðum á markaði. Vonandi getum við endurráðið sem flesta og flutt aðra til í starfi. En það er ljóst að ekki fá allir vinnu eftir endurskipulagningu. Hversu margir það verða get ég ekki sagt til um að svo komnu máli. Óvissan í þjóðfélaginu gerir að verkum að maður getur engar áætlanir gert,“ segir Ragnar Jóhannsson framkvæmdastjóri og einn eigenda Formaco.

Uppsagnarfrestur er mismunandi hjá starfsfólki, allt frá einum mánuði upp í sex mánuði.

Formaco er rúmlega tíu ára gamalt fyrirtæki og hefur framleitt álglugga, ásamt því að flytja inn glugga og tæki og búnað fyrir byggingaverktaka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert