Haft er eftir Geir H. Haarde, forsætisráðherra Íslands, á vef norska blaðsins Aftenposten í dag að hann óttist að íslenskt efnahagslíf fari fimm ár aftur í tímann vegna efnahagskreppunnar. Þá segir að hann sé ánægður með þau samtöl sem hann hafi átt við ráðamenn á Norðurlöndum þrátt fyrir að þau hafi ekki leitt til beinnar efnahagsaðstoðar.
Tekið er fram að Geir leggi áherslu á að ekki hafi verið til þess ætlast að Norðurlöndin aðstoðuðu Íslendinga með fjárframlögum og að höfuðmáli skipti að Íslendingar finni fyrir stuðningi nágranna sinna og skilningi á því hversu alvarlegt ástandið sé.
Farið er yfir stöðuna í efnahagsmálum Íslendinga í forystugrein á Aftenposten og greint frá því að enn hafi ekki verið útilokað að Íslendingar fái lán frá Rússum eða Japönum. Þá segir að íslensk yfirvöld hafi sætt harðri gagnrýni fyrir skort á eftirliti með hinu skammvinna útrásarævintýri bankanna og að staðan á Íslandi hafi vakið upp umræður um hættuna sem fylgi því þegar smæð samfélags geri það að verkum að stutt sé á milli ráðandi afla í stjórnmálum annars vegar og atvinnulífi hins vegar.