„Við erum komin af stað með sparnaðarnefnd í utanríkisráðuneytinu, með það að markmiði að skera niður eins og við getum," segir Ingbjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra. Meðal þess sem er til skoðunar í ráðuneytinu er hvort hverfa eigi frá beiðni um loftrýmiseftirlit við Ísland, en til hefur staðið að Bretar sinni þessu eftirliti í desember.
Aðspurð um eftirlitið segir ráðherra að hafa verði í huga að það hafi verið að beiðni Íslands að þjóðir Atlantshafsbandalagsins (NATO) tóku að sér loftrýmiseftirlit við Ísland. Loftrýmisgæslan var samþykkt í júlí 2007 í kjölfar óska Geirs H. Haarde forsætisráðherra, sem setti beiðnina fram eftir brotthvarf bandaríska varnarliðsins. Eftirlitið fer fram samkvæmt ákvörðun NATO og á að vera ársfjórðungslega.
„Það var fyrir okkur gert, en ekki greiðasemi við NATO-þjóðirnar. Við verðum að meta það út frá okkar hagsmunum hvort við teljum þörf á þessu eða ekki. Ég tel sjálfgefið að miðað við stöðu mála núna og þá áherslu sem við hljótum að leggja á efnhagslegar varnir, og þá fjármuni sem við setjum í þær, þá séu þessar hefðbundnu varnir eitthvað sem við hljótum að skoða. Aðrar varnir eru í forgangi núna," segir utanríkisráðherra.